Reykjavík Mobility 2. útgáfa
Pósturinn er með flota af rafknúnum burðarhjólum. Ég setti mig í samband við Guðmund Karl Guðjónsson sem hefur haft umsjón með flotanum til að grennslast fyrir um reynslu Póstsins af þessum tækjum.
Burðarhjólin eru frá svissneska fyrirtækinu Kyburz og sérstaklega ætluð í póstburð. Hvert hjól vegur 158 kg en tekur 90 kg af pósti að aftan og 30 kg að framan. Í löggjöfinni flokkast þau sem létt bifhjól, en það er hægt að stilla það í sérstöku viðmóti sem er hýst miðlægt á „skýinu“ hvort hjólin séu í flokki 1 eða 2 — og sömuleiðis fylgjast með staðsetningu og hleðslu tækja. Þetta eykur sveigjanleika flotans þar sem sum hjól innan flotans eru þá leyfð á gang- og hjólastígum ef hámarkshraðinn er stilltur á 25 km/h. Að öðrum kosti er hraðinn settur í 45 km/h, en það er hámarkshraði fyrir flokk 2. Mótorinn er 3,5 kW sem slagar í 4 kW hámarkið fyrir létt bifhjól.
Hjólin kosta á bilinu 1,8-1,9 m. kr. komin til landsins þannig að þau eru ekki langt frá smábílum í kostnaði. Þau hafa það hinsvegar framyfir bílana að þau komast nær inngöngum (lesist: bréfalúgum) og bílstjórar eru fljótari að grípa flokkuð bréf og halda akstri áfram. Guðmundur segir að 70-80% af póstsendingum á höfuðborgarsvæðinu sé sinnt á hjólunum. Þrátt fyrir kostnað á hjólum þá sparast tími og hver starfsmaður sinnir meiri póstburði en á fólksbifreið.
Pósturinn tók inn fyrstu hjólin 2016 til prufu en er kominn í 49 hjól í dag. Fyrstu hjólin eru enn í notkun á sömu rafhlöðu. Greinilega hágæða framleiðsla frá Sviss. Hjólin fara út kl 9 á morgnanna og þá hafa aðrir starfsmenn þegar flokkað sendingar.
Heildarþyngd á Renault Zoe rafmagnsbílnum, sem t.d. Aha hefur valið fyrir sinn flota, er um 1.500 kg. Hámarksþyngd á þessu tæki með ökumanni er innan við 250 kg. Póstburður er hinsvegar frábrugðin sendingum Aha að því leiti að hvert hjól stoppar oftar með styttri millibili og „þræðir“ gatnakerfi borgarinnar. Aha, Dominos og aðrir flotar í einkaeigu eru yfirleitt að keyra lengra á milli áfangastaða sem er hugsanleg ástæða til að kjósa þyngri tæki með hærri hámarkshraða.
Útblástur á 150kg tæki sem gengur fyrir rafmagni er brot af því sem þekkist á fólksbifreiðum. Rafhlaðan er í takt við þyngd tækis og hámarkshraða. Minni farartæki gera einnig mun minni kröfur til umhverfisins og skipulags. Hljóðmengun, landnotkun og alvarleiki slysa eru vanmetnir þættir í vali samgöngulausna — oft á tíðum ekki „prísað“ inn í kostnað eiganda tækjanna. Stórt hrós á Póstinn fyrir að velja þessa lausn.
Innlent
⛽️ Borgin ætlar að fækka bensínstöðvum úr 50 í 20. Meira að segja Vigdís Hauks er með þessari tillögu. Það er verið að selja þetta á forsendum „orkuskipta“, en ég skil ekki hvernig það á að ganga upp ef rafmagnsbílar taka enn meira pláss því þeir þurfa lengri tíma í hleðslu. En gott skref hjá borginni. Þetta er alltof verðmætt landsvæði fyrir svona margar stöðvar. Óljóst hvernig hleðsla á rafmagnsbílum þróast.
🛣 Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar er hættulegasta svæðið í Reykjavík. Samgönguráðherra ætlar að setja 120 m.kr. í að aðskilja akstursstefnur á þjóðvegum. Úti á landi þar sem hraðinn er í og yfir 100 km/h er það eina vitið. En í borg á bara að fækka hraðbrautum og hægja á umferð þungra ökutækja.
🚧 Talandi um að hægja á umferð. Þorsteinn samgöngustjóri Reykjavíkur ætlar að breyta götum og hægja á umferð. Frábært skref.
Erlent
🚙 Nánari upplýsingar um VW ID rafmagnsbílinn sem byggir á nýju platformi sem á að mynda undirstöðu allra rafmangsbíla VW samsteypunnar. Mikið af áhugaverðum upplýsingum.
🚲 Flottasta rafhjólaleiga í heimi, Smide, er að opna í Bandaríkjunum undir nýju nafni. Guðfaðir Micromobility hreyfingarinnar er stjórnarmaður. Fyrirtæki sem tengist Toyota sterkum böndum er hluthafi.
🛴 Rafmagnsskútur eru með varhugaverða slysatíðni. Það þarf að mínu mati að mýkja umhverfið verulega fyrir þessi tæki.
Í næsta fréttabréfi…
Tek fyrir bílastæðin í Reykjavík. Er með talningu og pælingar sem passa mjög vel inn í þessar breytingar á Snorrabraut sem Þorsteinn talar um … stay tuned …