Reykjavík Mobility 18. útgafa

Hæ Reykvíkingar,

Ég man ekki eftir því að samgöngur hafi nokkurntímann verið svona mikið í brennideplinum. Beðið er eftir blaðamannafundi þar sem útfærsla og fjármögnun á Borgarlínu verður kynnt. Í þessu fréttabréfi: Veggjöld, hlaupahjólaleigur, dagskrá Bíllausu göngunnar o.fl.

Ég var í fréttum Stöðvar 2, titlaður sem ráðgjafi á sviði borgarsamgangna.

kv Jökull Sólberg


Upplýsingar frá fundi Samgönguráðuneytis, SSH og kjörnum fulltrúum á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að leka í fjölmiðla. Mér finnst þetta hálf klúðurslegt að hafa ekki góðan blaðamannafund og leyfa þessum mikilvægu upplýsingum að fara óstaðfestum í fjölmiðla. Blaðamannafundur hlýtur að koma. Link

  • 125 ma.kr. settar í framkvæmdir til ársins 2033 (9 ma.kr. á ári) — helmingur af þessu er Borgarlína sem er ennþá áætlað 70 ma.kr.

  • Nýtt orðalag af hálfu ríkisins, segjast munu fjármagna að minnsta kosti 50% af Borgarlínu. Áður var þetta „að mestu“. Þetta er risastórt atriði þó það sé opið til túlkunar.

  • Veggjöld eiga að fjármagna 60 ma.kr. eða um helming. Leggjast á stofnbrautir, 200 til 600 kr fyrir hverja ferð. Hækka á álagstíma.

  • Sjö milljarðar í bætta ljósastýringu, hjólastíga, undirgögn og göngubrýr.

Sko. Ljósastýring, undirgöng og göngubrýr eru fylgihlutar hraðbrauta. Það er ennþá groddaleg hraðbrautarstefna í gangi samkvæmt þessu. Stefnan er að létta álagið á hraðbrautum með bættum almenningssamgöngum. Það er ekki verið að horfast í augu við vandamálið: umferðarhvetjandi mannvirki. Nýlegt dæmi er breikkun Bústaðavegs þar sem íbúar Suðurhlíða voru í litlu eða engu samráði.

Tölum aðeins um veggjöld. Meðfram orkuskiptum bílaflota þarf að endurskoða gjaldtöku sem tengist notkun, eign og öflun bifreiða. Í stuttu máli þá hefur ríkið í miklu mæli stólað á eldsneytisálögur til að fjármagna gatnagerð. Það hefur verið snyrtileg og einföld leið. En umhverfisvænir bílar fá ekki bara niðurfellingu VSK til að auðvelda öflun, heldur sleppa þeir við eldsneytisgjöld. Á einhverjum tímapunkti þarf að leita annara leiða til að notendur bíla standi að mestu undir sínum kostnaði. Veggjöld gætu verið rétti staðurinn. En það er annar staður sem er enn betri: bílastæði.

RSK lítur ekki á bílastæði á vinnustað sem hlunnindi. Það þýðir að rekstur stofnana og fyrirtækja mismunar gróflega þeim sem nota bílastæði annarsvegar og hinsvegar hinum ört stækkandi hóp sem notar aðra fararmáta. Ef bílastæði væru talin fram sem skattskyld hlunnindi yrðu sterk viðbrögð samstundis í ferðavenjum. Vinnustaðir gætu gripið til þess ráðs að hækka laun og samgöngustyrki til allra og leyft þeim sem þurfa bílastæði að afþakka þá kjarabót. Á móti kæmu tekjur af bílastæðum. Einhvernveginn þyrfti að koma til móts við þá sem þurfa ekki þessi rándýru innviði. Í Kanada hafa yfirvöld litið á frí bílastæði sem skattskyld hlunnindi.

Í suðurhluta Borgartúns er mikið af gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir vinnustaði. Starfsmenn Origo eru farnir að mæta extra snemma til að sleppa við umferð og koma bílnum fyrir áður en stæðin fyllast. Ef við áætlum að tveir þriðju af þeim 1.600 stæðum sem eru á þessu svæði séu gjaldfrjáls og í eigu vinnuveitanda, að 85% af þeim stæðum séu notuð af starfsfólki og að virði bílastæðapassa á þessu svæði sé 16.000 kr á mánuði þá væri það hlunnindi sem samsvara 172 m.kr. á ári. Þetta er algjör servíettuútreikningur, en þetta eru augljóslega alvöru upphæðir ef við lítum til höfuðborgarsvæðisins alls.

Ef við ætlum að breyta ferðavenjum þá þurfum við að fjarlægjast efnahags-pólitískt kerfi sem gefur eftir hundruðir milljarða af bílafríðindum á hverju ári burtséð frá því hvort einstaklingar og heimili styðjist við þennan fararmáta eða ekki. Meðfram breyttum ferðavenjum eykst pressan á að allar bíltengdar ívilnanir séu endurskoðaðar til að jafna leikinn.

Viðmið um fjölda bílastæða fyrir nýbyggingu hefur þegar lækkað í nýjum byggingarreglugerðum. Það mun hafa áhrif á næstu árum fyrir þéttingarsvæði í borginni. Breytingar á skattkerfinu gæti verið næsta skref til að draga úr meðgjöf bílsins.


Innlent

🚙 Gjaldskylda á utandyra bílastæðum á borgarlandi hefur verið lengd til 20:00 á kvöldin. Ég hefði viljað sjá gjaldskyldu allan sólahringinn og ókeypis í bílastæðahús eftir kl 20:00. En þetta er auðvitað stórt skref í rétta átt. Bílastæðin eru ground zero í ferðavenjum. Link

📁 Ferðavenjukannanir eru mjög mikilvægar svo að gögn séu til staðar í gegnum umræðu, stefnubreytingar og ákvarðanatöku um hlut fararmáta og t.d. viðhorf gagnvart almenningssamgöngum. Það eru tvær tegundir af ferðavenjukönnunum gerðar; ein „stór“ á nokkra ára fresti sem hefur mikið vægi. Til að fylla í eyðurnar er eins manns ráðgjafafyrirtækið Land-ráð sf. fengið til að gera minni könnun sem hefur ekki sama vægið en þykir „nice to have“. Það er hérna sem t.d. SI fær sínar tölur um aukningu hlut bílsins úr 75% í 79% á síðust árum. Link

🚌 Nýtt leiðakerfi Strætó er í undirbúningi. Stefnubreyting í nýja kerfinu felur í sér að efla tíðni og þjónustu á stofnleiðum. Afköst og farþegafjöldi er forgangsraðað framyfir „coverage“ eða dreifingu stöðva. Gæti þýtt að fólk þurfi að labba lengra, en það þarf þá ekki að bíða lengi eftir næstra Strætó. Tímataflan mun skipta minna máli. Link

💰 Andrés Ingi Jónsson (VG) fékk svar við fyrirspurn um VSK stofn rafhjóla og hjóla árið 2018. Svarið er 250 m.kr. eða um 8% af niðurfelldum VSK stofni raf- og tengiltvinnbíla. Ríkisstjórnin hefur boðað niðurfellingu VSK á rafhjólum en ekkert gerst síðan. Link

🐴 Donkey Republic hjólin eru komin. Reykjavík styður verkefnið um 10 m.kr. á tveimur árum. Donkey hefur hafið rafhjólavæðingu erlendis, vonandi nær það á klakann innan fárra ára. Link

🛴 Go X hyggst opna rafhlaupahjólaleigu í Reykjavík. Link

Erlent

📱 Transit appið miðlar nú greiðslum til örflæðisfyrirtækja og almenningssamgöngustofnana. Næsta skref gæti verið samgönguáskrift — einhverskonar bundle eins og er í boði í Helsinki. Link

🇫🇷 Hjólaleigan Vélib í París gengur vel. Og enn betur í verkföllum strætó og lestakerfis. Link


Myndin

Dagskráin fyrir Bíllausa daginn er komin.

Þetta er fallegt að sjá:


Twitter: @jokull

Áframsendið á hvern sem er. Ekki hika við að svara þessum pósti með athugasemdum, þær berast beint til mín.

Loading more posts…