Losun gróðurhúsalofttegunda og ferðamenn

Útblástur í vegasamgöngum er 6,5% af heildarútblæstri landsins en um 25% af útblæstri geira sem eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hér er um að ræða bruna á innfluttum fljótandi orkugjöfum.

Um áramótin tekur kolefnisbókhald Parísarsáttmálins við Kyoto skuldbindingum. Kyoto skuldbindingar skiptast í tvö tímabil, það fyrra og svo hið seinna sem kennt er við Doha. Það fyrra tókst okkur standast, en þar var markmið ekki sett hátt. Við gáfum okkur svigrúm til að undanskilja losun á CO2 frá nýrri stóriðju, svigrúm til að telja til breytingar á landnotkun og skógrægt (þó lítið hafi verið gert í þeim málum) OG svigrúm til að auka annan útblástur um 10%! Undanþága fyrir nýja stóriðju var sérstakt ákvæði sem var gert fyrir Ísland og Liechtenstein.

Á Doha tímabilinu 2013-2020 sem endar um áramótin er staðan slæm. Við settum markmið í 20% samdrátt miðað við 1990 og vorum komin í sameiginlegt evrópskt viðskiptakerfi fyrir stóriðju. Stefnir í að við verðum a.m.k. 17% yfir þeirri losun sem við sömdum um við ESB.

Útskýrir fjölgun gistinótta ferðamanna á tímabilinu hluta af þessari aukningu?

Fjölgun gistinótta á tímabilinu var 480% og var fjöldi gistinótta kominn í 7,5 milljónir árið 2018. Aukning í losun í vegasamgöngum var þó ekki nema 20% á sama tímabili. Aukning yfir viðmiði árið 2013 var samanlagt 419 þúsund tonn af CO2 ígildum — en losun yfir heimild var 4-5 milljón tonn.

Var einhver verulegur samdráttur vegna hækkandi hlut hreinorkubíla í flota? Í lok 2018 var hlutur hreinorkubíla (PHEV+BEV) í flota ekki nema 3,3% (komið í 4,4% árið 2019). Einhverjar breytingar voru í ferðavenjum á höfuðborgarsvæðinu en aukning bendir til þess að það hafi verið takmarkaður sigur. Bíllinn vann þetta reipitog eins og árin á undan.

Fátt annað hefur áunnist í loftslagsáætlunum nema bætt orkunýting fiskiskipa. Segja má að við höfum verið „way off“ hvort sem gefinn sé afsláttur vegna aukningar í ferðaþjónustu eða ekki.