Reykjavík Mobility 7. útgáfa
Hæ Reykvíkingar,
Sala rafjóla og aaaðeins meira nöldur um ívilnanir á rafbílum. Ég kem vopnaður með gögn beint frá býli Fjármálaráðuneytisins um magn ívilnana fram til ársins 2018. Í molum; vanrækslugjöld, Vaðlheiðargöng og nýsamþykkt umferðarlög.
— Jökull Sólberg
Sala rafhjóla
Rafhjól eru að sækja í sig veðrið. Ég kíkti á gögn frá tollinum til að greina hvernig sala á reiðhjólum, rafhjólum og léttum bifhjólum hefur þróast síðustu ár. Ég tel líklegt að sala á rafhjólum taki framúr reiðhjólum 2021 eða 2022.
Sala á hjólum og rafhjólum er árstíðabundin. Í lok júní hafa rúmlega 3/4 allra reiðhjóla verið flutt inn fyrir árið og helmingur innflutnings á sér stað á tímabilinu apríl-júní. Rafbílar seljast jafnt og þétt yfir árið – gulu súlurnar eru til samanburðar.
Sölutölur frá 2017 til maí 2019 gefa til kynna mikla aukningu á sölu á rafhjólum. Rafhjól og létt bifhjól er að finna í tollflokkunum 87116010, 87116090, 87119031, 87119039 og hef ég hópað þá saman undir einn flokk í greiningunni.
Spáin mín gerir ráð fyrir 36% aukningu á rafhjólum og léttum bifhjólum og 5% samdrætti á reiðhjólum á þessu ári. Áhugaverðustu tölurnar eru þó framundan; hér um bil helmingur innflutnings á sér stað á tímabilinu apríl-júní og þær tölur eru ekki komnar úr kössunum.
Hefur þessi aukning áhrif á ferðavenjur og hlutdeild samgöngumáta? Það vantar sárlega að gera tíðari og ítarlegri ferðavenjukannanir á Íslandi. Akstur bifreiða innan Reykjavíkur er 2,9 milljón km á dag og um 900.000 bílferðir. Stóra spurningin er hvert þessi kílómetrar munu fara á næstu árum. Hlutdeild hjóla í Reykjavík er 7% samkvæmt Ferðavenjukönnun 2017. Kannski 9-10% núna í sumar. Ég horfi á Borgarlínu, ég horfi á Strætó og rafhjól. Þangað eru kílómetrarnir að fara og ég held að vöxturinn gæti orðið mestur í rafhjólum og léttum bifhjólum.
… aðeins meira um ívilnanir rafbíla
Gagnrýnin á ívilnanir á umhverfisvænum bifreiðum í síðustu viku féll í grýttan jarðveg. Mörgum fannst ég vera að gagnrýna jákvæðan hlut og „nitpicka“ of mikið. Í stuttu máli finnst mér þetta vitlaust staður til að beita ívilnun, í nýskráningum. Betra er að greiða fyrir förgun gamalla bifreiða.
Það nýtist ekki bara hátekju heimilum.
Áhrif á bílaflota eru markvissari; tækin sem menga mest eru tekin úr umferð.
Það hvetur til annarra samgöngumáta en bílsins og breytir ferðamynstri.
Í dag er greitt 20.000 kr. fyrir förgun á bifreið. Betrumbætt ívilnun stjórnvalda til að ná markmiðum sínum um svokölluð „orkuskipti“ gæti falið í sér að greiða töluvert meira í reiðufé fyrir förgun á bíl og ákveðna upphæð að auki í inneign sem má nota í rafbíl, rafhjól eða Strætó.
Ívilnunin eins og hún er í dag hefur þó sparað okkur a.m.k. 100 þúsund tonn af CO2 útblæstri. Hún er af hinu góða. Spurningin er hvort við getum gert enn betur og/eða beitt réttmætari og öflugri aðferðum til að stýra neyslu landsmanna.
Sem ein öflugasta framkvæmd ríkisins í loftslagsmálum til þessa er mikilvægt að átta sig á umfangi, áhrifum og þróun orkuskipta í bílaflota. Á myndinni hér fyrir neðan eru skráningar á tengiltvinn- og rafbílum. Árið 2019 er mín spá sem byggir á gögnum til og með maí. Heimild: Samorka.
Ég sendi inn fyrirspurn til Fjármálaráðuneytis og spurðist fyrir um magn ívilnana fyrir umhverfisvæna bíla. Hér birtast þær tölur, í fyrsta skipti opinberlega eftir því sem ég best veit.
Ívilnanir eru rúmlega 3 milljarðar á ári og ég býst við svipaðri tölu í ár. Ætlunin er að taka þetta lengra og meta það hversu miklum útblæstri er haldið í skefjum með þessum ívilnunum til að meta það hversu áhrifamikill þessi drjúgi tekjumissir ríkisins er í loftslagsbáráttunni.
Innlent
😂 Magnús Arnar forseti bæjarstjórnar í Seltjarnarnesi og sjálfstæðismaður vill fjölga forgangsreinum Strætó, fjölga ferðum og koma sérstaklega í veg fyrir að umferð hamli Strætóvögnum. Samt er hann alveg á móti Borgarlínu. Link
🚴♀️ Umferðarlögin voru samþykkt á Alþingi. Þráður á FB hópnum Samgönguhjólreiðar þar sem farið er yfir helstu breytingar fyrir hjólreiðafólk. Gott stuff. Link
⛰ Fyrstu mælingar í Vaðlheiðargöngum benda til þess að 640 þúsund bílar muni fara þar um á ári. Samanburður: Ein Borgarlínuakgrein á fullu blasti ferjar 1300 manns á klukkutíma. Kostuðu göngin ekki ríkið 17 milljarða? Link
🧐 Sýslumenn innheimta milljón á dag í vanrækslugjöld fyrir skráðar bifreiðir sem skrópa í skoðun. Sektin er bara 15.000 kr. Eru þá hátt í 25 þúsund tæki sem standast ekki skoðun og fá að vera áfram í umferðinni gegn vægu gjaldi? Bílastæði er 15 fm. Þetta er í alvöru 1.000 kr. á ári á fermeter af verðmætu borgarlandi. Link
✍️ Sverrir Bollason úrbanisti hjá VSÓ er með spánýtt fréttabréf um húsnæðismál, fasteignaþróun og borgarþróun. Mæli með. Link
🚙 Umferð á Laugavegi var snúið við. Sindri Jensson náði mjög fyndnu vídjói af gjörsamlega ráðvilltum ökumönnum. Bílar eru svo klunnalega stórir í þessari götu. Link
Erlent
🎙 Podcast viðtal við bílasagnfræðinginn Dan Albert. Elska svona stöff. Iðnaðarsaga er svona semi uppáhalds bókaflokkurinn minn og Dan er að kynna bókina „Are We There Yet?“. Link
🎟 París gæti lokað bílastæðum í kringum gangbrautir. Lokun bílastæða er uppáhalds framkvæmdin mín. Link
♿️ Þriðjungur fatlaðra vill hjóla meira (UK könnun). Hversu oft hefur maður heyrt frasann „Það geta ekki allir hjólað!!“ í umræðunni um aðförina að einkabílnum. Fleiri geta hjólað en halda mætti. Rafhjól og þríhjóla bifhjól opna marga möguleika. Link
🚲 Vancouver hefur áttað sig á því að örygisstilfinning í umferð er það sem laðar að fleiri hjólreiðamenn. Hefur sett mikla áherslu á að flokka hjólastíga eftir gæðum og búið til flokkunarkerfi. Link
🏗 Mögnuð myndasería af hjólaarkitektúr. Verkefnin eru innsendingar í einhverja sýningu. Link
👨🏼🎨 Málning á götum eru ekki hjólainnviði. Link
🗺 Búðu til „hjólaleiðakerfi“ útfrá heimili þínu. Flott myndræn samsetning. Link
Myndin
Fyrir neðan sjáum við línur með lengd akgreina innan þrískipts vegakerfis; hraðbrautir, stofnbrautir og staðbundnari „local“ vegi. Súlurnar sýna svo notkunina á vegakerfinu. Nýtingin er verst í „háræðunum“.
Í öðrum orðum; last mile er dýr framkvæmd miðað við notkun í km!
VMT = Vehicle miles travelled
Twitter
Twitter: @jokull
Áframsendið þetta á hvern sem er – það hjálpar dreifingu og kynningu. Lífið er likes™.
Ekki hika við að svara þessum pósti með athugasemdum, þær berast beint til mín.