Reykjavík Mobility 3. útgáfa

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram drög að leigubílafrumvarpi sem er ætlað að tryggja að Ísland standist kröfur EES um óheft aðgengi að markaði um bifreiðaskutl. Það er talsverður aðdragandi að þessum frumvarpi. Ýmsir stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina gert athugasemdir við núgildandi fyrirkomulag sem felur í sér takmarkaðan fjölda leyfa, ógagnsæi í leyfisveitingum, margra ára feril til að öðlast leyfi til aksturs á eigin bifreið o.fl.

Þessi orðræða hefur verið háværari eftir að ferðamannastraumur jókst umfram aukningu á fjölda leyfa. Þá hefur mörgum þótt gjaldskrá ekki gefa til kynna að um virka samkeppni sé að ræða og að erlendir risar sem styðjast við hugbúnað til að tengja skutlara við farþega gæti orðið neytendum til hagsbóta á litlum markaði. 

Forsvarsmenn leigubílstjóra hafa svarað að það sé yfirleitt stutt bið í bíl og að óhagkvæmt rekstrarumhverfi sé það sem útskýri verðskránna; ekki einokun eða leyfisfjöldi. Leyfin eru um 550 og Hreyfill er með 60% af markaðnum. 

Nú lítur út fyrir að ný reglugerð komi til með að breyta landslaginu töluvert. Fallið er frá hámarksfjölda leyfa og ýmis ákvæði mýkt eða fjarlægð, svosem merkingar á bílum og kvaðir um verðlag. Ég les í þetta að nú sé fátt í vegi fyrir Uber og Lyft að tilkynna komu sína til landsins. Íslendingar dýrka að fá erlendar þjónustur til landsins. Spotify drap tonlist.is, Apple Pay er að öllum líkindum að slá í gegn og allar kannanir á framboði Airbnb í Reykjavík benda til að landinn sé óhræddur við að „deila“ húsnæði með ferðamönnum.

Innreið Uber á leigubílamarkað á alþjóðavísu er ekki bara umdeild meðal leigubílstjóra sem er ógnað af sveigjanlegra framboði á vinnuafli, heldur hefur mörgum þótt framboðsaukning á fólksbifreiðalausnum auka á vanda tengdan fólksbílum sem borgir glíma við. Rannsóknir hafa sýnt að í bílaborgum þar sem Uber og Lyft er vinsælt verði tilfærsla frá almenningssamgöngum í fólksbíla sem stuðlar svo að verri landnýtingu og verri umferðarteppum. Að auki er talsvert hlutfall af akstri sem er rakin til leigubíla, akstur án farþega, sem eykur álag á gatnakerfið — sem er það sem borgir víðsvegar um heiminn eru að reyna að sporna við með ýmsu móti.

Bílstjórar Uber hætta flestir innan þriggja vikna. Bílstjórarnir aka 17 klukkustundir á mánuði að meðaltali. Sú tölfræði sýnir hversu kvikt framboðið á vinnuafli er þegar aðgengi að skutlinu er aukið. Að sama skapi má gera sér í hugarlund hugsanleg ruðningsáhrif á þann leigubílamarkað sem þrífur í dag í skjóli þessara 550 leyfa.

Mitt take: Þessi þróun er líklega að koma til landsins. Ég er með „mixed feelings“. Hreyfill hefur staðið sig *hræðilega* í hugbúnaðarþróun og þetta  verður spark í rassinn. Virðist ekki hafa áhuga á að fá t.d. endurgjöf um sína bílstjóra, eða bara að láta appið virka.

Mér finnst athyglisvert að Bandarísk fyrirtæki fái 10-20% þóknun af stærri og stærri hluta af þjónustuhagkerfinu á Íslandi. Þetta er tækni-innrás. Og appið er ekki einu sinni svo flókið í forritun.

Skutl á réttmætan stað meðal ferðaþarfa, sérstaklega fyrir bíllausa, þá sem vilja fá sér í glas eða einfaldlega verja sig frá veðri á verstu dögum ársins. Það eru nokkrar hliðar á þessu, sumar jákvæðar og sumar neikvæðar. Svipað og Airbnb. Þeir sem vilja vinda ofan af einkabílisma hafa að réttmætar áhyggjur. Og leigubílstjórarnir þurfa að aðlagast harðari samkeppni í boði EES.

Fréttir

✍️ Fréttablaðið birti grein eftir mig um bílastæði í Reykjavík. Link

😂 Hreyfill hefur stofnað fyrirtækið Suber. Skutl-risinn Uber kvartaði til Einkaleyfastofu en þar var komist að þeirri niðurstöðu að íslenskir neytendur tengdu orðið Uber ekki við leigubílaakstur og því ekkert við þessu að hafast. Link

🔴 Einn af hverjum 417 fóru yfir á rauðu samkvæmt mælingum á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Link

🗼 Parísarborg hefur tilkynnt um samstarf við einkaðila á rafknúnum deilihjólum. Hjólin verða leigð til lengri tíma til einstaklinga. Áhugaverð nálgun. Link

🤟🏻 Universal Basic Mobility. Geggjuð pæling. Link