Reykjavík Mobility 23. útgáfa

Í vikunni sem leið voru drög að frumvarpi um niðurfellingu á virðisaukaskatti hjóla, rafhjól og léttra bifhjóla birt á samráðsgátt

Ef frumvarpið verður samþykkt munu rafhjól fá allt að 96 þúsund kr. virðisaukaskatts niðurfelldan af hverju tæki í smásölu og rafhlaupahjól eða venjuleg hjól fá 24 þúsund kr. felldar niður. Allar innsendar umsagnir hingað til eru athugasemdir um að 24 þúsund kr. niðurfelling þurfi að vera aukin. Kerfið svipar til niðurfellingar sem raf- og tengiltvinnbílar njóta. Upp að ákveðnu þaki á söluverði er VSK felldur niður. Ef neytendur vilja fara í mjög dýr tæki er stuðningurinn ekki eins hár. Þannig fengi neytandi hjól á 100.000 kr og rafhjól á 400.000 kr með engum VSK. 

Í frumvarpsdrögunum má líka finna eftirfarandi tillögur

  1. framlenging og hækkun á hámarkshlunnindum rafbíla

  2. niðurfellingu ívilnana fyrir tengiltvinnbíla árið 2021

  3. leiga á hreinorkubílum verði ekki virðisaukaskattskyld þjónusta

Hvernig hefur vöxtur í sölu rafhjóla verið til þessa?

Nú eru septembertölur komnar frá tollinum og við getum rýnt fyrstu þrjá ársfjórðunga þessa árs, gert okkur í hugarlund hvernig árið endar og hvað er í vændum á næsta ári. 

Rafhjól falla undir tollanúmerin 87116010 og 87116090. Það inniheldur Reiðhjól B, C og létt bifhjól 1 og 2 (rafhjól, létt bifhjól undir 4kW og rafhlaupahjól).

Það sem vekur athygli er hvað þróun á fjölda annarsvegar og farmverðmæta hinsvegar hefur verið ólík frá árinu 2018. IKEA hjólin voru flutt inn 2017 og 2018 en mig grunar að þau hafi skekkt annars jafnari þróun á rafhjólamarkaðinum. Þar eru líklega um rúmlega 1,000 hjól flutt inn talsvert undir meðalverði þessa flokks. Nú hefur IKEA hætt sölu og aðrir tekið við þessum markaði. Meðalverðmæti hvers tækis hefur í kjölfarið hækkað úr 58 þús árið 2018 í 97 þús það sem af er ári (67% hækkun). Rafhlaupahjólin koma svo sterk inn 2019 en tekst samt ekki að halda niðri meðalhækkuninni. Kannski er önnur skýring á þessu mikla stökki í verðmæti hvers tækis. 

Athugið að innflutningsverðmæti endurspegla ekki nákvæmlega söluverð, því þar vantar virðisaukaskatt og álagningu.

Hvert stefnir salan fyrir þetta ár?

Innflutningur hjóla er mjög árstíðabundin. Í lok þriðja ársfjórðungs síðustu tveggja ár hafa að meðaltali 95% rafhjóla og hjóla verið flutt inn það árið. Ef við notum þennan stuðul til að spá fyrir um magn innfluttra hjóla fyrir árið 2019 þá stefnir í 9% samdrátt í innflutningi (17% samdráttur rafhjóla, 8% samdráttur hjóla). 

Sé hinsvegar litið til sömu stuðla fyrir verðmæti (FOB tölur) væntum við 46% aukningu í verðmætum innfluttra rafhjóla og 7% hjóla á þessu ári. Hingað til hef ég stuðst við þessar FOB tölur í fyrri póstum.

Nú þegar niðurfelling hefur verði tilkynnt verður líklega hægari sala fram að áramótum vegna þess að fólk frestar kaupum til að fá betri díl. Á hinn bóginn gæti borið á innflutningi í lok árs til að mæta aukinni eftirspurn strax í janúar.

Hversu mikil eða „dýr“ er niðurfellingin?

VSK leggst ofan á söluverð sem innifelur álagningu. Þar sem ég veit ekki hver álagning vörunnar er mun vera flókið mál að áætla hversu „stór“ niðurfellinging er. Það sem flækir þetta enn frekar er að með lægra verði má búast við fleiri kaupendum og að kaupendur leyfi sér flottari hjól. Einnig má gera sér í hugarlund „tískubólu“ eða neytendahegðun sem stýrist af jákvæðu umtali, uppbyggingu stíganetsins og þrýstingi á að neytendur verði meðvitaðri um sótspor sitt með tímanum og horfi þá til þess að breyta ferðavenjum sínum. 

Semsagt: Við getum ekki áætlað nema mjög gróflega hver niðurfellingin verður í krónum talin. Ef við gerum ráð fyrir 20% álagningu á innflutning samkvæmt árstíðaspánni hér að ofan þá væri virðisaukaskattsofninn um 470 m.kr. á þessu ári. Spákonur og nostradamusar geta svo gert sér í hugarlund hversu stór þessi stofn verður á næsta ári. Þetta er um það bil sama fjármagn og borgin hefur sett í reiðhjólastíga á ári. Árið 2018 var stofn virðisaukaskatts af þessum tollaflokkum 383 m.kr

Niðurfelling raf- og tengiltvinnbíla í fyrra var rúmlega 3.035 m.kr. árið 2018, og 2.295 m.kr. árið þar áður. Ekkert nema sjálfsagt mál að hjólin fái að fljóta með ef þetta er sú leið sem ríkisstjórnin vill fara til að stýra orkunotkun og ferðavenjum. Aðrar leiðir eru þó í boði: að draga úr stuðningi við einkabílinn og hækka kolefnisgjaldið enn meira. Þær aðgerðir eru jafn áhrifamiklar og þær eru óvinsælar. Því fleiri sem hjóla þeim mun auðveldara verður að fara í þannig aðgerðir. 


Innlent

🏡 Framkvæmdir við Bústaðaveg stöðvaðar af íbúum. Þarna átti að lengja frárein þannig að úr yrði í raun önnur akrein örfáum metrum frá bakgörðum parhúsanna í Suðurhlíðum. Þarna hefði borgin átt að annaðhvort stöðva þetta á hugmyndastigi eða fara með þetta í samráð við íbúa sem hefðu aldrei samþykkt þetta þegjandi. Link

🚯 Hjólbarðar eru uppspretta 75% af öllu örplasti landsins. Viðbjóður. Link

💨 Niturdíoxíð sem kemur úr bensín- og díselvélum olli því að loftgæði voru „slæm eða miðlungs á nokkrum stöðum [í Reykjavík]“. Viðbjóður. Link

🅿️ Svokölluð vistskífa veitir raf-, tengiltvinn-, vetnis- og tvinnbílum aðgang að 90m gjaldfrjálsu bílastæði í miðborginni. Skipulags- og samgönguráð hefur samþykkt að á næsta ári verði þetta bara raf- og vetnisbílar. [Disclaimer: Ég vann að skýrslu sem samgöngustjóri lagði til grundvallar þessarar tillögu]. Link

🇮🇸 Kolefnisreiknir.is leyfir notendum að átta sig á fótsporinu sínu og hvaðan það kemur. Flugferðirnar tikka hratt inn. Link

🚌 Snilldar kort frá GitHub notandanum @ragnarheidar sem sýnir nýja Strætó leiðarnetið og hvar skiptistöðvar ná 400m göngufjarlægð inn í íbúahverfi. Þetta er snjöll framsetning á þjónustustiginu. Link

🏴‍☠️ Pistill frá Sigurbjörgu Pírata í Kópavogi um Samgöngusáttmálann. Þau gagnrýna að Sáttmálinn hafi verið afgreiddur án samráðs við borgara og minnihlutaflokka. Gagnrýna jafnframt að ennþá fái bíllinn of mikla meðgjöf til að ferðavenjur breytist. Link

🚘 Bílgreinasambandið elskar að tala um hvað bílaflotinn er orðinn gamall. Þetta er algjört rugl. Endurnýjun síðustu ára hefur verið mjög mikil. Link

Fyrir áhugasama þá hafa nýskráningar þróast nákvæmlega svona eftir hrun (sjá „sveigjanleikann“ 2009-2013):

💸 „Hversu mikið eyðir þú í samgöngur til og frá vinnu?“. Vel heppnað hackathon verkefni sem tekur tvö heimilisföng og reiknar kostnað og útblástur mismunandi samöngumáta. Link

🤓 Gísli Marteinn bendir á að breidd Hringbrautar í Vesturbæ ber vel sannkallaða borgargötu þar sem mannlíf fær forgang. Link

Erlent

↕️ Útdráttur úr nýrri bók sem dregur úr mikilvægi sjálfkeyrandi bíla og varpar ljósi á mikilvægi strætóa, hjóla og lyftunnar sem leyfir okkur að byggja þéttar. Hafði ekki hugsað um lyftur sem samgöngur áður. Góð grein. Link

⚙️ Rafbílar eru rafhlöður með fimm sæti. Rafhlaðan er hlægilega þung og þarf að vera stór til að í raun bera sína eigin þyngd, rétt eins og eldsneytistankur flugvélar þarf að rúma stórfenglegt magn af eldsneyti til að koma vélinni (of restinni af eldsneytinu!) á loft. En þróun í mótorum fleygir einnig fram þó þeir séu ekki aðal atriðið. Eitt af því sem sumir framleiðendur eru að skoða er að hafa fjóra mótora fyrir hvert hjól í stað þess að hafa einn miðlægan. Býður þetta mögulega upp á fullkomnari stjórn á bifreiðinni. Link

💨 London er með ultra low emission zone sem hefur dregið úr 29% af NO2 mengun sem annars væri. Link

🚲 New York ætlar að setja mikið fjármagn í að bæta hjólastíga næstu 10 árin. Link

🛑 Samantekt á Minneapolis og Seattle sem hefur báðum tekist að draga úr umferð meðfram fólksfjölgun. Vancouver er önnur slík borg sem má líta til. Ég tel ekki líklegt að umferðarstokkar hafi verið hluti af neinni lausn hér. Link

🏍 Revel, leiga fyrir létt bifhjól, var að opna í Austin. Væri svooo til í svona í Reykjavík. Er sannfærður um að svona tæki taki á endanum við af rafhlaupahjólunum og komi þá af meiri krafti í staðinn fyrir bíla. Link

🇫🇮 Langferðarlest með barnahorni í Finnlandi. Link

🇬🇧 Rafvæðing hjólasamganga í Bretlandi hefur ekki verið eins hröð og víða annarstaðar í Norður Evrópu. Greinarhöfundur telur það einfaldlega vera vegna forgangsröðunar í gatnakerfi. Link

👨‍👩‍👧‍👧 Grein um mömmur í Minnesota sem elska burðarhjól. Link


Myndin

Vildi bara minna á Transit appið. Það er með Donkey hjólin og fínan stuðning fyrir leiðarkerfi Strætó. Moovit er líka nice. Ekki með Donkey en er með rauntíma GPS fyrir strætóa.


Twitter: @jokull

Áframsendið á hvern sem er. Ekki hika við að svara þessum pósti með athugasemdum, þær berast beint til mín.