Reykjavík Mobility 10. útgáfa
Hæ Reykvíkingar,
Ég er í Frakklandi í sumarfríi, nánar tiltekið í París og nú á leiðinni í lúxuslegri lest sem fer í gegnum vínhéruð og endar á Vesturströnd Frakklands í Biarritz. París var algjör negla. Fengum gott veður og Parísarbúar eru super nice og skemmtilegir. Örflæðið hefur hertekið Parísarborg. Það eru ótal rekstraraðilar á hlaupahjólum, hjólum og skellinöðrum – og hjólin eru út um allt. Fyrir eru tví- og þríhjóla vélhjól vinsæl og einkabíllinn hefur verið á undanhaldi í 20 ár. Frakkland er að innleiða hjálmskyldu á hlaupahjólum í lög og Parísarborg er að fækka leyfum til reksturs á stöðvalausum leiguhjólum til muna. Verður áhugavert að fylgjast með þróuninni í þessari merku borg.
— Jökull Sólberg
Heil fjölskylda á sitthvoru 250w rafhlaupahjólinu.
Ég hef verið að skoða BRT (bus rapid transit) kerfi, hvað einkennir þau og aðgreinir frá venjulegum strætókerfum og hvernig þau hafa reynst erlendis.
Í umræðunni, a.m.k. eins og hún birtist mér á Facebook, þykir kerfið of dýrt en mér finnst það ódýrt og aðal áhyggjur fólks virðast snúast um að kerfið verði ekki notað en ég hef meiri áhyggjur af því að kerfið hafi ekki undan þegar fram líða stundir. Þetta helst auðvitað í hendur. Ef einhver trúir ekki að kerfið verði notað þá er framkvæmdakostnaður ekki eins líklegur til að standa undir þeim ábata sem vænst er.
Raskið sem fylgir því að leggja teina fyrir léttlestir er töluvert en BRT kerfið er þeim kosti gætt að geta flætt um forgangsreinar inn í blandaða umferð og aftur til baka án teina. Það sem gerir strætókerfi að BRT kerfi eru fimm þættir; hátt hlutfall af forgangsreinum, forgangur á gatnamótum, miðasala á stöðvum fremur en inn í vögnum, skipulag akreina þar sem BRT vagnar eru innst og stöðvarnar eru upphækkaðar svo gólf vagnsins er jafnt stöðinni.
Eins og sést af upptalningunni þá er forgangur í umferð „aðal málið“. Vagnarnir rúma allt að 160 farþega og geta gengið mjög ört, t.d. á mínútu fresti. Sex mínútna tíðni hefur verið nefnd í undirbúningsskýrslum. Ekki veit ég hversu stórir vagnarnir verða en ef við gerum ráð fyrir 100 farþegum í hverjum vagni á sex mínútna fresti þá eru það 1.000 farþegar á annatíma í aðra átt.
Miklabraut við Grensásveg í Norðurátt telur þrjár akreinar og þar fara 3.100 bílar á klukkustund á álagstíma. Ef miðað er við 1,3 farþega á bíl að meðaltali þá er það u.þ.b. 1.300 manns á akrein á klukkustund. BRT er í þessum útreikningi með lægri flutningsgetu.
Í stuttu máli má segja að BRT ávinningurinn felist í auknu flæði á hverja akrein, en ekki fyrr en tíðni vagna eykst umfram þessar sex mínútur sem hafa verið ræddar.
Þetta er þó auðvitað bara brot af þeim ávinning sem um ræðir. Þetta er hagstæður fararmáti, fær forgang í umferð og dregur úr bílastæðaþörf fyrir einkaaðila svo dæmi séu tekin. Landnýtingin felst ekki bara í færri akreinum. Þetta er snjöll og sjálfsögð framkvæmd!
Hærri tíðni vagna á hverri stöð leyfir bætta nýtingu BRT akreina í umferðinni þar sem vagnar aka hátt í á tíu sekúndna fresti. Hinsvegar myndast örtröð á skiptistöðvum sem aðeins er hægt að leysa með því að bæta við auka akrein sitthvoru megin í hvora átt svo að vagnar þurfi ekki að mynda röð til að komast í stöðina heldur aki meðfram kyrrstæðum vögnum og upp að lausu stæði þar sem hægt er að hleypa farþegum inn og út. Þetta stækkar það svæði sem BRT stöðvar þurfa. Samkvæmt þessari heimild er hámarksflutningsgeta BRT án þessara stærri stöðva einungis 2.500 farþegar í hvora átt.
Innlent
🛣 Starfshópur um hið fyrirhugaða samgöngumannvirki Sundabraut hefur skilað af sér skýrslu um þá möguleika sem eru fyrir hendi. Þar eru kostir og gallar lágbrúar og ganga ræddir en niðurlagið er skýrt; þetta er annaðhvort rándýrt (göngin) eða óraunhæft (brú). Þetta verkefni er aftan úr fornöld. Ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig við Parísarsáttmálann og aðgerðaráætlunin talar um breyttar ferðavenjur. Hvernig væri að setja þetta fjármagn í að hraða Borgarlínu og auka við hlut ríkisins? Link
⚡️ Orka náttúrunnar lét útbúa skýrslu þar sem líftíma kolefnisspor rafbíla er borið saman við aðra. Stærðin á rafhlöðunni skiptir miklu. Rafbílar koma úr verksmiðjunni með hærra fótspor en venjulegir bílar útaf rafhlöðunni. Eftir 20 þús km hefur venjulegur bíll tekið framúr LEAF hvað varðar útblástur. Tesla Model S er með miklu stærri rafhlöðu og þarf 60 þús km af akstri til að vera á við venjulegan bíl. Talað er um 250 þús km líftímaakstur. Link
💸 Stýrihópur á vegum borgarinnar leggur til að gjaldskylda bílastæða nái líka til sunnudaga og að gjöldin verði endurskoðuð. Góð þróun, líka fyrir íbúa miðbæjarins. Þetta er einföld, sanngjörn og ódýr aðgerð til að ýta undir breytta ferðamáta og nýta borgarlandið betur. 25% af landinu okkar fer undir kyrrstæða bíla. Galið. Link
🛵 Bo Hall er að selja mjög fallega skellinöðru af gerðinni Vespa. Link
🚍 Verkefnastofa Borgarlínu hefur tekið formlega til starfa. Link
Erlent
👩🏻🎤 Celine Dion undir Eiffel turninum með gaddaól um hálsin á Bird rafhlaupahjóli. Link
📊 Myndband sýnir myndrænt samanburð á umferðarflæði mismunandi fararmáta. Link
🚲 Eins metra hjólarein er með magnaða flutningsgetu, yfir 4.300 farþega á klst. Link (sjá líka myndrænan samanburð hér)
🔋 Skemmtileg sagnfræði frá Quartz. Lee Iacocca, maðurinn sem bjargaði Chrysler á sínum tíma, fór af stað með rafhjólafyrirtæki árið 1997, þá 72 ára. Rafhlöðutæknin var ekki komin og hjólin voru of þung. Link
🎧 Hjólafólk með heyrnatól heyrir betur í umhverfinu en bílstjóri í bíl. Link
Twitter: @jokull
Áframsendið þetta á hvern sem er – það hjálpar dreifingu og kynningu. Lífið er likes™.
Ekki hika við að svara þessum pósti með athugasemdum, þær berast beint til mín.