Rafhjólamet, hjólasláin, Planitor

Ég var að fá mér nýtt rafhjól; Tern S8i sem fæst hjá Ellingsen. Þetta er hybrid borgar- og burðarhjól sem er hægt að hlaða á körfum, sætum og ýmiskonar aukahlutum. Dekkin eru breið en lítil og í stað keðju er belti sem þarf ekki að smyrja. Það er létt í snúningum og Bosch kerfið stendur undir nafninu. Mæli hiklaust með svona hjóli. Þetta er alvöru strumpastrætó.

Annars er það að frétta af mér að ég hef stofnað hugbúnaðarfyrirtæki með Guðmundi Kristjáni Jónssyni, skipulagsfræðingi og húsasmiði. Við ætlum okkur að kortleggja skipulagsmál með svipuðum hætti og upplýsingatorg á borð við CreditInfo hafa gert fyrir fjármálageira. Fókusinn er á Íslandi og fyrsta verkefnið er að búa til leitarvél fyrir fundargerðir byggingar- og skipulagsfulltrúa víðsvegar um landið.

Kíkið á planitor.io/s — hlekkurinn leiðir þig á prufuútgáfu af síðunni. Hér má t.d. sjá mál sem Vivaldi Ísland ehf. rekur hjá borginni.


Hver mánaðarmót gerir Hagstofan gögn um innflutning tveimur mánuðum fyrr opinber. Núna 1. júlí erum við því komin með gögn um innflutning reiðhjóla, rafskúta- og hjóla í maí.

Hér sjáum við fjölda tækja sem tollurinn afgreiðir …

… og hér eru farmverðmæti.

Bláu stubbarnir eru hærri á seinni myndinni því að að öllu jafna er rafhjól dýrara en rafskúta eða hjól. Það er óhætt að segja að örflæðið sé í stórsókn, sem og hjólreiðamenning almennt.

Talnaruna hagstofunnar sem ég hef aðgang að nær ekki lengra aftur en þetta. En ég held það sé óhætt að tala um metmánuð- og ár í innflutningi léttra farartækja.


Ég á ekki „alvöru“ hjólalás heldur geymi hjólið inni eða læsi því með „litlum“ lás sem er innbyggður og snýst í gegnum gjörðina og hef þá auga á hjólinu ef ég stekk inn í kaffihús eða e-ð slíkt. Ég held það séu margir í sömu sporum sem eiga hjól í dýrari kantinum, burðarhjól eða fína racera. Treysta einfaldlega ekki að það verði látið í friði þó það sé læst, sérstaklega ekki yfir nótt eða yfir vinnutíma.

Þessi hjólastæði hjá borginni eru með alvöru slá sem er opnuð með appi, sveigð utan um hjólið og aflæst aftur með appi. Samkvæmt framleiðanda (Bikeep) hefur svona slá aldrei verið söguð og engu hjóli stolið. Þetta er eitthvað industrial military grade dæmi — kærkomin lausn og rausnarlega staðsett beint fyrir framan inngang. Þetta er afar einfalt í notkun og skrifstofan mín er rétt hjá. Hef hingað til verið að halda á hjóli upp stiga en kannski ven ég mig á þetta í staðinn núna. Ef svona stæði er laust þarf ég ekki að halda á hjólinu, þarf ekki að hafa þungan lás meðferðis og heldur ekki að hafa áhyggjur.

Þessir lásar eru gjaldfrjálsir. Þá má líka finna rekka í bílastæðakjallara ráðhússins. Vonandi poppa þeir upp víðar.

Geymsla og öryggi er vandamál sem þarf að leysa því þetta eru ekki bara hjólagarmar heldur blanda af allskonar tækjum sem kosta sum upp undir milljón. Það er svo biturt og leiðinlegt þegar hjólum er stolið og tilhugsunin fælir frá notkun hjóla almennt, sérstaklega hjóla sem eru vönduð og koma í stað bíla.

Ég skora á verslunarfólk að skoða þessa boga hjá Hjólalausnir.is. Þetta er ekki mikill fórnarkostnaður (t.d. 1-2 bílastæði), slárnar endast örugglega vel og viðskiptavinum líður betur eftir að það skilur við tækin sín.


Yfir og út
kv Jökull Sólberg