Nýskráningar fólksbifreiða 2019

Kem úr dvala til að deila tölum sem ég fékk frá Fjármálaráðuneytinu og Samgöngustofu.

Nýskráning fólksbíla (M1) féll 36% á milli ára. Þetta eru rosalegar sveiflur síðustu tíu ár. Endurnýjun flotans náði hámarki 2017.

Hér má sjá samanburð á árlegum breytingum nýskráninga annarsvegar hjá EU+EFTA og svo á Íslandi. Er þetta þessi séríslenski „viðnámsþróttur“?

En ætli þessi samdráttur í nýskráningum hafi náð til hreinorkubifreiða? Á næsta grafi sjáum við tvo Y-ása. Hægri ásinn sýnir samanlagðan fjölda skrásettra tækja úr tveimur flokkum: hreinna rafbíla (BEV) og plug-in hybrid (PHEV). Vinstra megin eru stofn niðurfellingar VSK á þessum bifreiðum, þ.e.a.s. heildarafsláttur í formi VSK sem fellur niður við öflun bifreiðanna. Þetta eru glóðvolg og uppfærð gögn frá Fjármálaráðuneytinu fyrir árið 2019 og hafa ekki birst áður að mér vitandi: 2.635 m.kr. í niðurfellingu í nafni orkuskipta bílaflota.

Samdráttur í nýskráningum náði í fyrsta skipt til bifreiða sem eiga rétt á niðurfellingu VSK. Hlutur þessara bifreiða í nýskráningum heldur þó áfram að vaxa.

Ég velti fyrir mér hvort að þessi umbun í formi afsláttar við öflun bifreiða sé ekki gat í fjárlögum sem þurfi á endanum að fylla. Veggjöld blasa við sem vænlegasti kosturinn. Þetta er einfaldasta leiðin til að fjármagna undirritaðar skuldbindingar ríkisins í sínum hluta samgöngusáttmálans sem hefur þann mikilvæga eiginleika að hampa þeim sem hoppa á borgarlínuvagninn.

Hvað er framundan?

Framboð á ódýrari rafbílum mun stóraukast á árinu. Sektir Evrópusambandsins sem varða meðalútblástur bílaflota hvers framleiðenda „kikkuðu inn“ um áramótin.

Rafhlöðutækni eru að þróast hratt og allt hefur þetta áhrif á framboð og verð rafbíla. Rafhlaðan er nærri því helmingur af kostnaði hreinna rafbíla. Hér hef ég bara fjallað um fólksbíla. Framboð á minni flutningabílum mun einnig spila inn í og væri vert að skoða.

Hér er góð yfirferð í myndbandi frá BloombergNEF.

Svo mæli ég með að followa Colin Mckerracher á Twitter.


kv Jökull Sólberg
Parallel ráðgjöf