Brunabílabann 2021

Ég ætla að tengja nokkra þræði úr mismunandi áttum sem allir tengjast þessum blessuðu orkuskiptum:

  1. Mér reiknast að rafbílar séu lang hagkvæmasta val neytenda í dag ef öll gjöld eru reiknuð út líftíma bílsins.

  2. Bann við nýskráningu mengandi bíla (ICE) strax á þessu ári er vel hugsanlegt.

  3. Nýlegar rannsóknir sýna að notkun tengiltvinnbíla samræmist ekki skráðri losun þeirra sem miðað var við á sínum tíma þegar ívilnanir tóku fyrst gildi.

  4. Bílgreinasambandið fær of mikið pláss við borðið þar sem orkuskiptin eru rædd.

  5. Við erum að dragast langt aftur úr Noregi í nýskráningum hreinorkubíla.


Langstærsta framlag stjórnvalda til loftslagsmála í samgöngum fram til þessa eru ívilnanir. Hreinir rafbílar (BEV) fá allt að 1.560.000 kr afslátt og tengiltvinnbílar (PHEV) 960.000 kr. Sérstök skráningargjöld miða svo við losun og þyngd bifreiða. Ívilnanir og gjöld við öflun ökutækja stýra vali neytenda á markaði nýrra bifreiða.

Rekstrarkostnaður, bensín-, kolefnis- og bifreiðagjöld bætast svo við. Ef neytendur reikna dæmið til enda blasir við að rafbílar eru langsamlega hagkvæmasti kosturinn. En framboð rafbíla er enn takmarkað, sérstaklega þar sem taugar landans eru hvað sterkastar, í flokki jeppa. Ef neytendur eru að leita að stórum bíl með mikla drægni þá þarf að bíða fram á mitt árið. Hámarksendurgreiðsla fyrir rafbíla er við 6,5 mkr. verðmiðann þannig að kaupendur jeppa finna ekki allir eins vel fyrir verðmuninum. Þeim sem langar í 13 mkr. jeppa láta ekki endilega 1,5 mkr. ívilnun breyta miklu.

Álögur á eldsneyti og bifreiðagjöld á líftíma fólksbifreiðar í meðal akstri er um 1,5 mkr. að öllu óbreyttu – cirka til jafns við niðurfellingu á virðisauka en dreifist yfir um 12 ára líftíma. Endurskoðun á gjaldtöku fyrir veghaldi og gatnagerð (sem stefnt er að) gæti breytt þessari sviðsmynd; þ.e.a.s., neytandinn getur ekki gengið að því vísu að álögur haldist jáfn lágar og þær eru fyrir rafbíla út allan líftíma bílsins. Líklegt er að einhverskonar akstursgjald sem miðar við kílómetramæli eða afnot af vegum komi til sögunnar á þessum tíma. Á móti kemur aftur að orkugjafinn er talsvert ódýrari fyrir rafbíla, jafnvel að bensín-, olíu- og kolefnisgjaldi frátöldu.

Að auki má benda á að framleiðslukostnaður rafbíla mun lækka á næstu árum — drægni mun aukast, endingartími á rafhlöðum mun aukast og framboð í flokkum mun aukast. Um 40% af kostnaði bílsins er rafhlaðan og þar hafa tækniframfarir verið ívið hraðari en bjartsýnisspár hafa gert ráð fyrir. Talið er að árið 2025 þurfi rafbílar ekki lengur aðstoð stjórnvalda.

Bottom line 1: Framtíð hreinna rafbíla er björt. Þeir eru langsamlega ódýrasti kosturinn nú þegar og munu lækka í verði jafnt og þétt — jafnvel þó við gerum ráð fyrir nýju akstursgjaldi.

Fyrir hrun var í gangi hröð og umfangsmikil endurnýjun bílaflotans. Meðalaldur flotans lækkaði eftir því sem öflun og förgun bifreiða jókst. Eftir hrun snérist þetta við og meðalaldur bílaflotans tók að hækka. Efnahagur hefur mikið með samsetningu bílaflotans að gera.

Hvað getum við lesið í þetta? Fólk kann að fresta öflun bíla, kaupa notað og sinna viðhaldi. Við keyrum 10 ára bílinn í 2-4 ár í viðbót áður en þeir fara á haugana. Verkstæðin halda lífinu í bílaflotanum. Heimilin bæta síður við sig bíl númer tvö og þrjú, aðrir samgöngukostir taka við, krakkar fresta ökunámi o.s.fv.

Ef við drögum úr framboði bíla með því að banna bíla sem menga mun fólk einfaldlega gera það sama og gerðist í kjölfar efnahagshrunsins; draga úr neyslu nýrra bíla.

Bottom line 2: Bann strax á morgun við nýskráningum mengandi fólksbíla mun virkja sveigjanleika bílaflotans. Fólk styðst við aðrar samgöngulausnir en nýja bíla; notaða bíla, ekki-bíla, færri bíla og hreina bíla. Eftir bann á brunabílum mun aukið framboð rafknúinna ökutækja í öllum flokkum hraða sjálfkrafa nýskráningum og förgun eftir því sem framboð þeirra eykst.

Nýjustu rannsóknir bæði innanlands og utan, hafa leitt í ljós að losun tengiltvinnbíla er mun meiri í raunheimi heldur en skráð gildi af hendi framleiðanda gefur til kynna. Það er vegna þess að notendur hafa annars vegar ekki aðgang að hleðsluinnviðum þannig að bíllinn keyri sem mest á rafhlöðunni, eða hafa ekki fyrir því að stinga honum í samband og nota einfaldlega eins og venjulegan brunabíl.

Bottom line 3: Komið hefur í ljós að tengiltvinnbílar losa mun meira á vegum en talið var. Stjórnvöld hafa ekki brugðist við þessum upplýsingum.

Fyrir áramót stóð til að draga til baka ívilnanir fyrir tengiltvinnbíla og leyfa ívilnunum hreinna rafbíla að standa eftir. Um jól var svo allt í einu kominn einhugur meðal flokka á Alþingi um að fresta niðurfellingunni. Svo virðist sem umsögn og aðkoma Bílgreinsambandsins hafi haft mikið vægi. Í umsögninni er því haldið fram að mikilvægt sé að brúa bilið frá mengandi bílum í hreina rafbíla með blönduðum tengiltvinnbílum þar til fjölbreyttari úrval rafbíla bjóðast neytendum. Það liggur í augum uppi hver hagnast á því fyrirkomulagi.

Einfalt hefði verið að auka álögur á mengandi bíla og leyfa skráningargjöldum og bifreiðagjöldum að standa eftir til að fæla fólk frá mengandi bílum — ef markmiðið væri að draga úr losun í gegnum hreinni þróun bílaflota.

Eina (hænu)skrefið sem var tekið í rétta átt um áramót var að lækka viðmið losunar fyrir PHEV flokkinn; úr 50 g í 40 g af CO2-ígildum/km. Þess má geta að Mitsubishi Outlander, söluhæsti bíllin í janúar, er í 48 g/km. Kannski eru það afhending eldri pantana fyrir áramót?

Bottom line 4: Innflytjendur bifreiða virðast sterk rödd í orkuskiptum. Það má ekki anda á fyrirtækin, þá er brugðist við og allt er gert á hraða og af ákefð orkuskipta sem hentar þeim.

Fyrir skemstu komu út tölur frá Schmidt Automotive Research um janúarskráningar á helstu mörkuðum Evrópu. Hlutfall nýskráningar hreinna rafbíla á Íslandi var lægra í janúar en allt árið í fyrra. Noregur hefur rokið framúr okkur þar sem hlutfall hreinna rafbíla er 53%, en okkar 21%. Þar njóta aðeins hreinorkubílar (raf- og vetnisknúnir) niðurfellinga VSK. Skráningar- og bifreiðagjöld sem reiknast útfrá þyngd og losunargildi fá að sjá um rest til að stýra nýskráningum.

Bottom line 5: Við erum að dragast aftur úr Noregi í orkuskiptum.

Þar sem við stöndum á tímamótum í baráttunni gagnvart loftslagsvánni þurfum við að hraða orkuskiptum. Þar er til mikils að vinna því þar er stærsti liður losuna á beinni ábyrgð stjórnvalda. Að því gefnu hversu illa ívilnanir virðast bíta á val neytenda, hversu langt við höfum dregist aftur úr Noregi, hversu teygjanlegur bílaflotinn er, og hversu hratt rafbílar eru að þróast og lækka í verði … þá tel ég tímabært að banna brunabíla strax á þessu ári og setja allan fókus á ívilnanir fyrir bíla með núll losun í akstri. Jafnframt er brýnt að endurskoða gjaldtöku á bensíndælunni því hún er að breytast í skatt á þá sem aka eldri ökutækjum og eru líklegri til að sitja í neðri tekjutíundum.