Reykjavík Mobility 14. útgafa

Hæ Reykvíkingar,

Ég var smá drama queen í Stundinni, með grein um hversu alvarlega eftir á við erum þegar kemur að skuldbindingum Parísarsáttmálans. Ég var svo í Vikulokum á Rás 1 með góðu fólki þar sem farið var yfir fréttir vikunnar.

kv Jökull Sólberg


Réttur öflugri rafhjóla

Nú er ég búinn að nota rafhjól sem „bíl númer tvö“ í smá tíma. Rafhjól er ekki dýrt hjól heldur ódýr bíll. Lítill mótor fyrir stuttar ferðir í borg. Ég er svo heillaður að ég er strax farinn að hugsa um næsta hjól—eitthvað stærra og enn flottara. Nú er ég kominn á bragðið og vil meiri kraft til að koma mér enn hraðar á milli staða. Afhverju er bíll með óheftan aðgang og „sport mode“, en hjólið mitt á lögum samkvæmt að slá út mótornum þegar ég er kominn í 25km/klst? Afhverju er ég takmarkaður við 250W en mótor í rafbíl er 20kW?

Rökin í umferðarlögum eru þau að bifhjól ógna öryggi- og öryggistilfinningu gangandi og annara hjólandi á gang- og hjólastígum—þar sem þau eru leyfð. Öflugri rafhjól eru skilgreind létt bifhjól í flokki II. Hvernig er þessi flokkur frábrugðinn reiðhjóli?

  • Það er gerð krafa um að mótor slái út í 45km/klst og rafmótor skili innan við 4kW af afli 

  • Það þarf að tryggja það — iðgjöld upp á 80 til 120 þús á ári

  • Það þarf að götuskrá hjólið með blárri plötu

  • Hjólið má ekki nota göngu- og hjólastíga

  • Krafa um baksýnisspegil vinstra megin á stýri (…nema ég sé að misskilja eitthvað)

Þetta er skrýtið tæki. Of öflugt fyrir hjólastíga og of takmarkað fyrir hraðbrautarakstur innan um þunga bíla á miklum hraða. Er einhver innstæða í þessum tækjum?

Ég velti því fyrir mér afhverju bílstjórum er treyst til að virða hámarkshraða í umferð, en öflugri rafhjólum er ekki treyst til að virða 25km/klst hámarkshraða á gang- og hjólastígum. Sömuleiðis skil ég ekki afhverju 45 km/klst er hámark innan um bíla sem fara oft mun hraðar.

Pósturinn fer í kringum þetta með því að hafa hjól í flokki II, en stillir hraðann á þeim fyrirfram til að gefa sumum hjólum aðgang að gangbrautum og öðrum hærri hámarkshraða, eftir því hvaða leið þau eru að fara. Ég geri svo ráð fyrir að bílstjórar séu látnir vita hvort hjólið sé í gangbrautarstillingu eða ekki eftir því hvort hámarkshraðinn er 25- eða 45 km/klst. En þarna er tæki með 4kW mótor. Samgöngustofa virðist hafa gefið þessu fyrirkomulagi grænt ljós. Fólkinu er treyst. Samkvæmt umferðarlögum er þetta strangt til tekið lögbrot. Pósturinn á mikið lof skilið fyrir að veðja á þessi hjól. Þetta er minni útblástur og póstburður er mun hraðari en á smábílum eða gangandi hvern einasta kílómeter. Samgöngustofa á líka lof skilið fyrir þessa túlkun í þágu betri borgar og hagkvæmari þjónustu fyrir alla.

Framboð á flokki II í hjólreiðaverslunum er verulega takmarkað. Örninn var með hjól í flokki II á vefsíðunni sinni (Commuter+ 8S). Það var merkt uppselt og var svo tekið út af heimasíðunni. Getur verið að Örninn hafi ekki vitað að það þyrfti að tryggja og skrá hjólið? Eða hafði fólk ekki áhuga á hjóli sem má ekki vera á hjólastígum? Ég hef líka heyrt af 750W hjóli sem festist í tollinum. Einhverjir eru að flytja inn öflugri mótora og búa til eigin pírata rafhjól sem eru 500W+ án hraðatakmarkana. Fáum er ógnað af þessum hjólum.

Það er kappsmál að greiða úr þessum flækjum og skerpa á lögunum. Gefum öflugum hjólum aukið svigrúm. Höfuðborgarsvæðið er skipulagt þannig að íbúabyggð, vinnustaðir og þjónusta er langt í burtu. Brekkur og vindur taka sinn toll. Öflugri hjól stytta þessar vegalengdir.

Mín tillaga er eftirfarandi:

  1. Bætum við umferðarlögin undanþágu um afl- og hraðatakmarkanir á öllum reiðhjólum og bifhjólum undir 50 kg. 

  2. Treystum þeim sem hjóla til að velja sér réttan hraða. Sama á við um bíla.

  3. Tryggjum að nýir hjólreiðastígar styðji þægilegan framúrakstur í báðar áttir. 

  4. Höldum skráningar- og tryggingarskyldu til að einfalda eftirlit, tölfræði og tryggingamál.

Gerum létt farartæki eins aðlaðandi og hugsast getur til að gera bílinn eins „optional“ og hugsast getur. Hámörkum virði og notkun hjólastíga.


Innlent

🛴 Það lítur út fyrir að a.m.k. ein önnur rafhlaupahjólaleiga fari í gang innan tíðar. Ber heitið Juice og er að nota Wunder Mobility fyrir utanumhald. Link

🚧 Eigendur Dill skjóta föstum skotum á borgina og segja umfangsmiklar framkvæmdir á Hverfisgötu hafa verið „martröð“ fyrir reksturinn. Borgin styðst við tölfræði sem sýnir að aukinn hlutur gangandi og hjólandi hafi jákvæð áhrif á þjónustu og verslun. Að sama skapi hljóta framkvæmdir sem raska allri umferð að hafa neikvæð áhrif. Ég finn til með rekstraraðilum. Verktakar og borgin þurfa að gera þetta eins snyrtilega og hratt og mögulegt er. Kröfur um bætt samráð eru réttmætar. Link

🚘 Afhverju er mbl með sér bílablað? Þarf sér blaðamann til að fjalla um tækninýjungar, sportbíla og hvaða litur er vinsælastur á nýjum bílum? Link

💸 B&L er með ný bílalán. Kjörin virðast góð, en þeir ná þessu með því að gefa ekki afslátt. Allir fá semsagt afslátt nema þeir sem taka lán. What a joke. Link

👻 Night Ride – neonljósa hjólatúr 29. ágúst. Link

👎🏻 Hagsmunafulltrúi stúdenta HR biðlar til nemenda að leggja fyrr af stað í skóla vegna veglokana. Bílismi á hæsta stigi. Hvað með hjól og strætó? Link


Erlent

💸 Uber skilar af sér ársfjórðungsniðurstöðum með svimandi háu tapi. Þetta er tilraun á jaðri kapítalismans. Link

🚲 Íslendingar völdu bílinn og Hollendingar völdu hjólið. Eða hvað? Frábær grein í Guardian um pólitíska hugsuði sem „völdu hjólið“. Mikil barátta og hugsjón að baki. Link

🙍🏼‍♀️ Til að rétta hlut kvenna meðal hjólandi þarf örugga stíga og gatnamót. Link

📉 Hvaða áhrif hefur hraðari úrelding bílaflota, t.d. með hærri greiðslum fyrir förgun á druslum? Rannsókn sem kannar mismunandi vinkla þar á. Greinilega ekki einfalt mál, og ekki endilega ódýr aðgerð í loftslagsbaráttunni. Link

🚕 Beinharðar tölur um umferðaraukandi áhrif Lyft og Uber. Link

📱 Nýir features í Apple Maps í iOS 13. Link

🙄 Tesla villir fyrir neytendum um öryggi á sínum bílum. Bílarnir koma vel út úr árekstrarprófum, en málfar í auglýsingum er villandi og auto pilot er klárlega ekki sjálfkeyrandi búnaður. Link

🇩🇰 Hlutur hjólandi í Kaupmannahöfn var „bara“ 36% árið 2012 en er nú 62%. Tvöföldun frá 2012, og vilja ganga enn lengra. Link

🇩🇪 Berlín er að breyta nokkrum verslunargötum í göngugötur. Lítil skref í rétta átt. Þetta er ekki miðaldarborg og það er meira pláss fyrir bíla en í t.d. Madrid. LinkMyndin

Fæ þessa að láni frá Lilju Karls. Ed Sheeran strætóarnir. Tignarlegt. Heimild


Twitter: @jokull

Áframsendið þetta á hvern sem er – það hjálpar dreifingu og kynningu. 
Ekki hika við að svara þessum pósti með athugasemdum, þær berast beint til mín.